Leiðbeiningar


Mikilvægt er að lesa eftirfarandi leiðbeiningar vel áður en hafist er handa við uppsetningu vegglímmiðans. Leiðbeiningamyndband er staðsett hér að ofan þar sem ferlið er sýnt skref fyrir skref. Nauðsynleg hjálpartæki eru: málningarlímband og gúmmískafa (hægt er að nota bankakort í stað gúmmísköfu). Einnig getur verið gott að hafa hallamál við höndina. Ef límmiðinn er stór borgar sig að tveir hjálpist að við að setja hann upp.

  1. Vegglímmiðarnir eru ætlaðir á alla hefðbundna veggi innandyra. Til að límmiðinn njóti sín sem best er heppilegast að veggurinn sé fremur sléttur og felldur. Það þarf að passa upp á að yfirborðið sé hreint og algjörlega þurrt. Veggurinn má ekki vera nýmálaður, það þarf að bíða í að minnsta kosti þrjár vikur frá því málað er og þar til límmiðinn er settur á. 
  2. Límmiðinn liggur á milli bakpappírs (hvítur) og yfirfilmu (gegnsæ). Við ásetningu er bakpappírinn hafður næstur veggnum og yfirfilman fjærst veggnum. Það er mikilvægt að velja staðsetninguna gaumgæfilega. Þegar búið er að ákveða hvar límmiðinn á að vera skal nota málningarlímband til að halda honum á sínum stað (límt á efstu brúnina). Gott er að nota hallamál svo límmiðinn verði ekki skakkur. 
  3. Áður en hafist er handa við að festa límmiðann á vegginn þarf að gæta þess að hann sé rækilega fastur við yfirfilmuna. Það er gert með því að nudda yfir límmiðann með höndinni eða gúmmísköfu (bankakorti) þannig að yfirfilman festist vel við hann. 
  4. Næst er málningarlímband límt yfir miðju límmiðans þvert á lengri hlið hans. Þetta skiptir límmiðanum í tvennt. Öðrum helmingi límmiðans er svo lyft frá veggnum og bakpappírnum flett varlega af honum (byrjað frá horni). Límmiðinn þarf að fylgja yfirfilmunni, ef hann er enn fastur við bakpappírinn skal renna honum aftur upp að filmunni og nudda vel þangað til hann festist við hana. Bakpappírinn er síðan klipptur eða skorinn frá. 
  5. Nú skal leggja límmiðann aftur að veggnum. Byrjað er frá miðju límmiðans og nuddað varlega með höndunum út að brúnum. Gæta þarf þess að halda þeim hluta límmiðans sem er ekki verið að vinna með frá veggnum svo hann límist ekki niður á röngum stað. Þegar búið er að nudda límmiðanum niður með höndunum skal nota gúmmísköfuna (bankakortið) til að fullkomna verkið. Henni skal beitt með þéttu en mjúku handbragði. Þegar fyrsti hluti límmiðans hefur verið límdur á vegginn skal nota sömu aðferð við seinni hlutann. 
  6. Gott er að bíða í um það bil 10 mínútur áður en yfirfilman er tekin af. Byrjað er frá einu horni (sama hvaða horni) og togað varlega í filmuna. Ef límmiðinn festist við filmuna skal setja hana aftur að veggnum og nudda með fingrunum eða gúmmísköfunni (bankakortinu) þar til límmiðinn er fastur við vegginn. 
  7. Ef loftbólur eru til staðar þegar búið er að setja límmiðann á vegginn skal ýta þeim varlega að brún límmiðans svo þær losni undan honum. Ef það reynist erfitt er hægt að stinga í bólurnar með nál eða hníf og þrýsta svo loftinu út um gatið með fingrunum. 
  8. Færðu þig nú frá límmiðanum og njóttu sköpunarverksins. 
  9. Ef fjarlægja á límmiðann af veggnum þarf einfaldlega að hita hann upp með hárblásara (til að losa límið) og toga hann rólega af. Athugið að ekki er hægt að nota límmiðann aftur.