Vel heppnaðri Handverkshátíð lokið

14 Ágúst, 2015

Þá er Handverkshátíðinni lokið að þessu ári og óhætt að segja að vel hafi tekist til. Veðurspáin lofaði ekki góðu í upphafi og það helliringdi á miðvikudeginum þegar við systurnar komum keyrandi norður. Okkur leist nú ekki á blikuna. En eins og svo oft hér á eyjunni okkar góðu tók spáin viðsnúning og veðrið var hið ljúfasta eftir allt. Sólin lét meira að segja sjá sig öðru hvoru.

 

Í ár tóku um 100 hönnuðir og handverksfólk þátt í hátíðinni og á útisvæði var hægt að bragða á og kaupa góðgæti frá -Beint frá býli- auk fjölda annarra aðila. Stemningin var allsráðandi og hátíðargestir undu sér vel við að skoða sýninguna eða yfir góðum kaffibolla, soðnu brauði, pönnukökum og öðru góðgæti í veislutjaldinu.

Við systur erum í skýjunum eftir helgina. Það er svo gaman að fá að kynna og selja vörurnar okkar öllu þessu jákvæða og áhugasama fólki. Nýju gluggamyndirnar okkar vöktu mikla athygli og margir töldu kost að þær væru ekki límdar upp svo þær er hægt að nota aftur og aftur.

Takk fyrir okkur og sjáumst aftur að ári! :)

______________

 Skildu eftir athugasemd